Saga sjóðsins

Ágrip af sögu Minningargjafasjóðs Landspítala Íslands

Konur á Íslandi hlutu kosningarétt og kjörgengi 19. júní 1915. Haldinn var fjölmennur kvennafundur á Austurvelli í Reykjavík 7. júlí 1915 til að fagna þessum réttindum. Þar hélt Ingibjörg H. Bjarnason, forstöðukona Kvennaskólans, ræðu og skýrði frá því að stofnun Landspítala væri það málefni sem konur mundu berjast fyrir nú þegar þær hefðu öðlast rétt til þátttöku í opinberum málum. Kvað hún konur um land allt mundu hefja fjáröflun til byggingar Landspítala og beita áhrifum sínum til að fá Alþingi og Landsstjórn til að taka málið til undirbúnings og framkvæmda. Reyndar hafði Alþingi fjallað um ,,Landsspítalamálið” allt frá 1845, er Jón Sigurðsson vakti fyrstur máls á því, til ársins 1901 en það ár lá fyrir Alþingi frumvarp um byggingu 24 rúma spítala. Alþingi barst þá bréf frá St. Jósefs systrum í Landakoti með tilboði um að reisa 35 rúma spítala ef Landssjóður veitti lán til byggingarinnar og árlegan styrk til reksturs. Var frumvarpið um Landspítala þá snarlega fellt, sem og tillaga um lán og styrki til Landakotsspítala, en hann reis samt og var vígður 16. október 1902. Eftir það hljóðnuðu umræður alþingismanna alveg um stofnun Landspítala þar til barátta kvenna ýtti við þeim. 19. júní 1916 stóðu konur í Reykjavík fyrir skemmtunum til fjáröflunar víða um borgina. Var þar gerð skilagrein fyrir fjársöfnun til ,,Landsspítalasjóðs Íslands”, lýst yfir stofnun sjóðsins og lesin upp skipulagsskrá hans. Í árslok 1925 voru í Landspítalasjóði tæpar 282 þús. krónur. Á árunum 1925-1928 voru alls veittar 300 þús. krónur úr honum til byggingar Landspítala. Árið 1933 styrkti sjóðurinn stofnun kynsjúkdómadeildar og 1948 fæðingardeild Landspítala.

Frá upphafi tók Landspítalasjóði að berast fé til minningar um látið fólk. Var því haldið aðgreindu í sérsjóði, Minningargjafasjóði Landspítala Íslands, sem var ætlað að styrkja fátæka sjúklinga til spítalavistar. Stjórnir sjóðanna voru skipaðar konum eingöngu og var Ingibjörg H. Bjarnason formaður beggja til dánardags 30. október 1941. Skipulagsskrá Minningargjafasjóðs var staðfest 13. október 1930. Brátt komst sú hefð á að fólk afhenti minningargjafir á Landssímastöðvum og þaðan voru send samúðarskeyti eða minningarkort. Árið 1939 veitti Landssíminn leyfi til að hringja mætti í símanúmer ritsímans til að fá samúðarskeyti sent. Eftir sölu Landssímans tók Íslandspóstur, nú Pósturinn, við þessu hlutverki í okt. 2005. Fyrsti styrkur úr Minningargjafasjóði, 84 krónur, var veittur 1931 sjúklingi er þurfti að greiða fyrir sjúkrahússvist. Eftir stofnun almennra sjúkrasamlaga árið 1936 fengu félagar í þeim ókeypis sjúkrahússvist hér á landi. Síðar á öldinni fjölgaði sjúklingum er þurftu að fara til útlanda til aðgerða, oftast hjartaaðgerða. Höfðu þeir yfirleitt fylgdarmann með sér og sóttu um styrki til Minningargjafasjóðsins vegna kostnaðar við flugfar hans og dvöl í viðkomandi borg. Hlutu mjög margir sjúklingar þessa styrki, á annað hundrað á ári, þegar mest var. Hjartaaðgerðir hófust hér á landi árið 1986. Eftir það dró smám saman úr fjölda þeirra sem þörfnuðust sjúkrahússvistar erlendis. Nú orðið eru þeir fáir og hefur úthlutun styrkja þeirra vegna því fækkað mjög. Árið 1961 var bætt við ákvæði í skipulagsskrá Minningargjafasjóðs, sem heimilaði að árlega yrði hluti tekna sjóðsins ætlaður Landspítala og úthlutað fjórða hvert ár. Slík úthlutun fór fyrst fram árið 1966. Nam hún 350 þús. krónum sem að ósk forráðamanna spítalans var varið til stofnunar Vísindasjóðs Landspítalans. Síðan hefur úthlutun fjár úr sjóðnum til Landspítala farið fram fjórða hvert ár og verið varið til kaupa á tækjum samkvæmt vali tækjakaupanefndar spítalans.

Heimildir:
Fundargerðir stjórna Landspítalasjóðs Íslands og Minningargjafasjóðs Landspítala Íslands.
Ingibjörg H. Bjarnason. Ræða 7. júlí 1915. Iðunn 1. árg. 1915, bls. 125-128.
Doktor Bjarni Jónsson. Á Landakoti, bls. 19-25. Setberg 1990.
Doktor Guðrún P. Helgadóttir. Ávarp. Landspítalinn 50 ára, bls. 61-62. Ríkisspítalar 1980.
Gunnar M. Magnúss. Landspítalabókin, bls. 42-46. Ríkisspítalar 1981.